Grettisgata

Gönguleið frá Geysi að Glym.

Grettisgata er tillaga að fjögurra daga gönguleið frá Haukadal í Árnessýslu, niður í Hvalfjörð. Hér er gengið á milli frægra náttúruperla. Frá Geysi – frægasta goshver Íslands, að Glym, hæsta fossi landsins.

Fyrst og fremst er þetta hugsjónamál að stinga upp á og leggja til valkosti fyrir áhugamenn um gönguferðir um Ísland.

Heildarleid_vef

Svæðið sem gengið er um ( kort frá Landmælingum Íslands )

Hér er verið að benda á góðan valkost við frægustu gönguleiðir Íslands, svo sem Laugaveg, Fimmvörðuháls og fleiri slíkar leiðir, þar sem fjölmennið er farið að spilla fyrir upplifuninni af óbyggðaferðum.

Það er lagt í hann við hverasvæðið kennt við Geysi, gengið upp á hálendi Árnessýslu og hraunbreiðurnar og heiðarnar þar arkaðar á fjórum dögum og komið niður í Hvalfjarðarbotn.

Til boða stendur að kaupa bók með rafrænu sniði (PDF) á vef þessum þar sem leiðinni er lýst og gefin eru upp helstu hnit (gps punktar). Sýnd eru kort með helstu punktum og lauslegum slóða þeirra á milli og birtar myndir af ýmsu sem fyrir augu ber.

Af hverju Grettisgata?

  • Þetta er falleg og aðgengileg leið, stutt frá byggð en samt í svo miklum óbyggðum.
  • Það er möguleiki á skálagistingu á öllum næturstöðum leiðarinnar. Rétt er að minna á að ferðalangar afli sér leyfa til að gista í skálum þessum.
  • Leiðarlýsing bókarinnar miðar við að gengið sé með allar byrðar á bakinu en þessi leið hentar líka mjög vel til trússferða.
  • Það er hægt að taka þessa ferð, legg fyrir legg, enda bílfært (a.m.k. jeppafært) að öllum næturstöðum leiðarinnar.
  • Leiðin er fremur auðveld yfirferðar og hentar byrjendum í bakpokaferðum vel, en vönum ætti þó ekki alls ekki að leiðast.
  • Á leiðinni er farið hjá tilkomumiklum fjöllum, yfir hraunbreiður, sanda, móa og sögufrægir staðir skammt undan.
  • Þótt Grettisgata fari um óbyggðir er hún tiltölulega stutt frá byggð. Hún er stutt frá stórum sumarbústaðahverfum og stutt frá Reykjavík. Þægilegt aðgengi er að upphafs- og endapunktum leiðarinnar.

Eitt ber þó að athuga á leið þessari. Fyrstu þrjár dagleiðirnar liggja að mestu yfir hraunbreiður og þar gæti verið lítið um vatn. Sérstaklega á þurrviðrissumrum. Brunnur er við skála Ferðafélags Íslands á Hlöðuvöllum, gisti menn þar. Ferðalöngum er bent á að búa sig með tilliti til þessa.

Gönguleiðin er nefnd í höfuðið á Ferðafjelaginu Gretti sem er vinahópur sem hefur það helst á stefnuskrá sinni að ganga um óbyggðir en hefur svo sem lagst í alls konar ferðir í gegnum tíðina.

Góða skemmtun og góða ferðaupplifun!